Enski boltinn

Stórglæsilegt mark Jóhannesar Karls

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður Burnley.
Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður Burnley. Nordic Photos / Getty Images
Jóhannes Karl skoraði í sínum öðrum leik í röð fyrir Burnley í ensku B-deildinni í gær.

Jóhannes var í fyrsta sinn í byrjunarliði Burnley á tímabilinu er liðið mætti Preston North End. Gestirnir komust yfir á 22. mínútu en Jóhannes Karl jafnaði metin fyrir Burnley ellefu mínútum síðar.

Markið var stórglæsilegt. Hann fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Preston og lét einfaldlega vaða af skotinu og boltinn söng í netmöskvanum.

Í síðari hálfleik skoruðu leikmenn Burnley tvívegis og unnu því 3-1 sigur. Jóhannes Karl spilaði allan leikinn í liði Burnley.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í liði Coventry sem gerði 1-1 jafntefli við Blackpool. Þá lék Brynjar Björn Gunnarsson sinn fyrsta deildarleik með Reading í mjög langan tíma en bæði hann og Ívar Ingimarsson var í byrjunarliðinu í gær.

Reading vann 4-0 sigur á Swansea en Brynjar Björn lék fyrstu 70 mínútur leiksins en Ívar allan leikinn að venju.

Reading er í þriðja sæti deildarinnar með fjórtán stig en Wolves (22 stig) og Birmingham (19 stig) hafa nú þegar tekið nokkra forystu í deildinni.

Coventry er í sjöunda sæti með tólf stig, rétt eins og Burnley sem er í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×