Innlent

Mannið ykkur upp og styðjið Íslendinga

Siv Jensen
Siv Jensen MYND/Frp.no

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Noregi, Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, lýsti í ræðu á flokksráðstefnu í Björgvin í dag, miklum áhyggjum vegna væntanlegs risaláns Íslands frá Rússlandi og taldi að það gæti haft alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir norðurslóðir.

Hún benti á að þetta gerðist á sama tíma og tekist væri á um yfirráð yfir auðlindum norðursins, þar á meðal olíu- og gaslindum, og spurði hvort menn vildu enn sjá áhrif Rússa aukast í þessum heimshluta. Siv Jensen gagnrýndi breska forsætisráðherrann Gordon Brown harðlega og sagði hann hafa gripið tækifærið til að ráðast gegn Íslendingum til að styrkja veika stöðu sína heimafyrir.

Hún sakaði norska forsætisráðherrann, Jens Stoltenberg, sömuleiðis um að nýta sér stöðu Íslands til pólitísks ávinnings. Hún hvatti til þess að Norðmenn kæmu Íslendingum til hjálpar, þeir ættu peningana sem til þyrfti, en undraðist um leið að Íslendingar skyldu hafa snúið sér til Rússa.

Skilaboð hennar til norsku ríkisstjórnarinnar voru þessi: Mannið ykkur upp og standið með Íslendingum, og hlaut fyrir vikið dynjandi lófaklapp frá salnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×