Innlent

100-200 störf til á næstu mánuðum með nýsköpun

Davíð Lúðvíksson.
Davíð Lúðvíksson.

Stefnt er að því að 100 til 200 ný störf verði til á næstu vikum og mánuðum með nýsköpun í atvinnulífinu. Vonast er til að unnt verði að virkja þá sem misst hafa vinnu sína nýverið.

Fjöldi hátækni- og sprotafyrirtækja er í uppbyggingu í landinu. Mikið af góðum verkefnum eru nú þegar tilbúin og bíða þess einungis að fá byr í seglin. Samtök iðnaðarins segja atvinnutækifærin mörg ef ráðist yrði í þau strax.

„Okkur sýnist að þetta geti verið á bilinu 100-200 störf tiltölulega fljótt sem um er að ræða og þá erum við eingöngu að tala um minni sprota og meðalstór hátæknifyrirtæki. Síðan erum við að horfa líka til þess að stóru hátæknifyrirtækin geti komið að þessu með einhverjum hætti," segir Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður hjá Samtökum iðnaðarins.

Samtökin hafa boðað til fjöldafundar á Hótel Nordica klukkan fjögur í dag undir yfirskriftinni Núna er tækifærið en þar munu fulltrúar hátækni- og sprotageirafyrirtækja kynna starfsemi sína og að auki mun Björk Guðmundsdóttir söngkona flytja erindi. Fundinum er ætlað að efla sóknarhug og sjálfstraust.

Vilji er til þess að nýttur verði sá mannafli sem farið hefur eða mun fara af vinnumarkaðnum og að fjármagn til að uppbyggingar verkefna og fyrirtækja kæmi að hluta úr Atvinnutryggingarsjóði, en atvinnuleysisbætur myndu þá nýtast með óvenjulegum hætti.

„Við myndum fá fyrir þennan sama aur ekki bara fólk til þess að sitja heima hjá sér heldur fólk til starfa til að skapa verðmæti. Þetta myndi bæta fjárhagsstöðu þess þannig að það ætti betri möguleika á að standa við sínar skuldbindingar og þetta myndi líka minnka álagið á heilbrigðiskerfinu því það vita jú allir að atvinnuleysi er kannski það mesta sálræna böl sem fólk getur lent í og því fylgir jú ýmiss konar kostnaður fyrir kerfið sem við getum þá sparað í leiðinni," segir Davíð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×