Erlent

Yfirmaður fjármálaeftirlits Kólumbíu segir af sér

Alvaro Uribe forseti landsins hefur beðið þjóðina afsökunar á því að ekki hafi verið gripið fyrr inn í málið.
Alvaro Uribe forseti landsins hefur beðið þjóðina afsökunar á því að ekki hafi verið gripið fyrr inn í málið.
Yfirmaður fjármálaeftirlitsins í Kólumbíu hefur sagt af sér eftir að upp komst um pýramídasvindl sem hefur kostað fjölmarga Kólumbíumenn mörg hundruð milljónir bandaríkjadala. Forseti landsins hefur beðið þjóðina afsökunar á að ekki hafi verið gripið inn í málið fyrr.

Til óeirða hefur komið í Bogota, höfuðborg Kólumbíu, síðustu daga vegna málsins.

Lögregla lokaði skrifstofum pýramídafyrirtæksins fyrr í vikunni vegna ásakana um að svik væru í tafli og að um peningaþvætti væri að ræða fyrir eiturlyfjabaróna og FARC skæruliða.

Um tvö hundruð þúsund manns í Kólumbíu og nágrannalöndum sitja eftir með sárt ennið og hafa tapað um tvö hundruð milljónum bandaríkjadala.

Yfirmaður kólumbíska fjármálaeftirlitsins sagði af sér vegna málsins og Alvaro Uribe, forseti, baðst afsökunar á að hafa ekki brugðist við fyrr þó tapið þarna væri langt frá því jafn mikið og milljarða dala tapið vegna íslenska bankahrunsins.

Uribe segir að þeir sem hafi tapað fái bætur.

Stofnandinn, David Murcia, var handtekinn í Panama og framseldur til Kólumbíu í gær. Hann segist saklaus.

Óeirðirnar hafa blossað upp því margir sem lögðu fé inn til ávöxtunar hjá Murcia trúa honum og segja ráðamenn hafa logið þessu upp á hann til að koma í veg fyrir að almúginn ávaxti fé sitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×