Innlent

Ekki hætt við hátíðarhöld um verslunarmannahelgi þrátt fyrir ólæti

Aldurstakmörk á tjaldstæðunum á Akureyri auðvelduðu lögreglu að fást við ólætin í miðbænum sem þó voru mun meiri en undanfarin ár. Bæjarstjórinn á Akureyri segir að atburðir helgarinnar hafi engin áhrif á hátíðarhöld um verslunarmannahelgina.

Lögreglumenn á Akureyri muna vart annað eins ástand í bænum eins og það var í nótt. Dósum og flöskum rigndi yfir lögreglumenn og flugeldum var skotið í átt að þeim. Þá kom til ryskinga þegar reynt var að hindra handtöku og þurfti lögregla að beita kylfum og varnarúða, en slíkum úrræðum hafa lögreglumenn á Akureyra sjaldan beitt.

Mikil umræða hefur skapast á Akureyri um aldurstakmörk á tjaldstæðum bæjarins. Gripið var til þeirra fyrir verslunarmannahelgina í fyrra, en þá var 23 ára aldurstakmark og fyrir Bíladaga sem nú er að ljúka var aldurstakmarkið 20 ár.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, sagði í samtali við Fréttastofu í dag að dapurlegt væri að svona skyldi fara. Hún tekur þó fram að Bíladagar hafi tekist mjög vel og langflestir hafi verið til fyrirmyndar, en því miður hafi örfáir svartir sauðir sett svartan blett á hátíðina.

Orðrómur hefur verið í gangi á Akureyri að til standi að leggja niður útihátíðina Ein með öllu um verslunarmannahelgina. Bragi Bergmann, einn stofnenda Vina Akureyrar sem staðið hafa fyrir hátíðinni undanfarin 7 ár, hefur lokið afskiptum sínum af hátíðinni vegna óánægju með framgöngu bæjarstjóra vegna aldurstakmarkanna. Hann segir kraftaverk ef að hátíðinni verður í ár, því langflestir styrktaraðilar hátíðarinnar hafi hlaupist á brott og enn eigi eftir að bóka öll skemmtiatriði.

Sigrún Björk segir hins vegar að unnið sé að undirbúningi hátíðarhalda í góðu samstarfi við Vini Akureyrar og að atburðir helgarinnar breyti engu þar um.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×