Íslenski boltinn

Dramatík í Grafarvogi

Fjölnismenn byrja leiktíðina með stæl
Fjölnismenn byrja leiktíðina með stæl Mynd/Daniel

Nýliðar Fjölnis hafa heldur betur byrjað vel á sínu fyrsta tímabili í Landsbankadeildinni. Liðið gerði sér lítið fyrir og skellti KR 2-1 í dramatískum leik í Grafarvogi í kvöld. Það var Gunnar Már Guðmundsson sem skoraði sigurmark Fjölnis úr vítaspyrnu þegar rúmar þjrár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Guðjón Baldvinsson kom KR í 1-0 í leiknum á 27. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Ásgeir Ásgeirsson fyrir heimamenn Fjölnis. KR pressaði stíft í síðari hálfleik og átti m.a. tvö skot í marksúlurnar, en inn vildi boltinn ekki. Fjölnir fékk svo vítaspyrnu í blálokin og tryggði sér annan sigurinn í röð í deildinni.

Keflavík 2 - Fylkir 1

Keflvíkingar réðu ferðinni lengst af gegn Fylki suður með sjó og unnu að lokum 2-1 sigur. Hólmar Örn Rúnarsson skoraði fyrra mark Keflvíkinga beint úr hornspyrnu á 20. mínútu og Guðmundur Steinarsson bætti við öðru marki með þrumuskoti af 25 metra færi í upphafi síðari hálfleiks. Fylkismenn tóku aðeins við sér undir lokin og minnkuðu muninn á 89. mínútu með marki varamannsins Andrésar Jóhannessonar.

Fram 2 - HK 0

Framarar byrja vel á Íslandsmótinu þetta árið og unnu í kvöld sannfærandi 2-0 sigur á HK. Safamýrarpiltar skoruðu bæði mörkin með skalla í kvöld. Hið fyrra skoraði Heiðar Geir Júlíusson eftir fyrirgjöf Daða Guðmundssonar á 47. mínútu og Ívar Björnsson innsiglaði sigurinn með öðrum skalla á 62. mínútu eftir hornspyrnu Sam Tillen. HK-menn urðu fyrir nokkru áfalli í upphafi síðari hálfleiks þegar markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson þurfti að fara meiddur af velli.

Breiðablik 0 - Þróttur 0

Breiðablik og Þróttur skildu jöfn á Kópavogsvelli í leik sem var ekki sérlega tilþrifamikill. Það var ekki fyrr en um 20 mínútur voru til leiksloka að heimamenn hleyptu fjöri í leikinn, en aðgangsharður Marel Baldvinsson náði ekki að skora úr nokkrum færum sem hann fékk eftir að hafa komið inn sem varamaður í hálfleik.

Fylgst var með gangi mála á Boltavaktinni.

Leik FH og ÍA er ólokið, en hann hófst klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×