Innlent

Um 2,5 prósenta atvinnuleysi á þriðja ársfjórðungi

Atvinnuleysi á þriðja ársfjórðungi þessar árs var 2,5 prósent og voru að meðaltali 4.800 manns á vinnu í atvinnuleit á tímabilinu. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Atvinnuleysi mældist 2,6 prósent hjá körlum og mjög svipað eða 2,5 prósent hjá konum. Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða nærri 50 prósent. Til samanburðar var atvinnuleysi á þriðja ársfjórðungi síðasta árs 2,1 prósent.

Greiningardeild Glitnis bendir á að þessar tölur sýni að enn hafi ekki slaknað á vinnumarkaðnum enda sé atvinnuleysi mjög lítið í sögulegu samhengi og í samanburði við önnur Evrópuríki. Gera megi þó ráð fyrir að atvinnuleysi aukist hratt á næstu mánuðum enda hafi atvinnuhorfur snarversnað á síðustu vikum. Þannig fari atvinnuleysi á skömmum tíma í fjögur til fimm prósent.

Tölur Hagstofunnar sýna enn fremur að af þeim sem voru atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi í ár voru nær eitt þúsund búnir að finna vinnu sem hæfist síðar, en um fimmtungur atvinnulausra. Tæplega 1.600 manns eða 33,5 prósent voru búin að leita skemur en einn mánuð að vinnu.

Þá kemur fram í tölunum atvinnuþátttaka á þriðja ársfjórðungi hafi verið nær 84 prósent. Atvinnuþátttaka karla var 88 prósent og kvenna 79 prósent. Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.

Þá reyndist meðalvinnuvikan á þriðja ársfjórðungi tæpar 44 klukkustundir, 48 klukkustundir hjá körlum og en 37 hjá konum. Þeir sem voru í fullu starfi unnu 47 klukkustundir að jafnaði en þeir sem voru í hlutastarfi unnu að jafnaði 26 klukkustundur á fjórðungnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×