Erlent

Höfundur Lonely Planet játar ritstuld og uppspuna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Eldfjall gýs í Kólumbíu.
Eldfjall gýs í Kólumbíu. MYND/AP

Höfundur 12 bóka eða bókarhluta úr ritröðinni Lonely Planet hefur viðurkennt að hann hafi stolið textanum sem hann birti sem sinn í bókunum auk þess sem stórir hlutar hans séu hreinn uppspuni.

Að sögn ástralska dagblaðsins Sunday Telegraph er hér um að ræða m.a. bækur um Brasilíu, Kólumbíu, Suður-Ameríku, Venesúela og Chile og kveður höfundurinn, Thomas Kohnstamm, að í einu tilfelli hafi hann ekki einu sinni heimsótt viðkomandi land, í því tilfelli Kólumbíu, þar sem útgefandinn hafi ekki tímt að greiða honum fyrir ferðalagið.

Hafi hann því ritað bókina að öllu leyti þar sem hann var staddur í San Francisco en stuðst við upplýsingar frá vinkonu sinni sem starfaði á ræðisskrifstofu Kólumbíu í borginni.

Dagblaðið hefur enn fremur eftir Kohnstamm að í nýrri bók sinni, „Fara ferðabókahöfundar til helvítis?", ljóstri hann því upp að hann hafi þegið ókeypis ferðalög af hagsmunaaðilum, nokkuð sem gangi þvert á vinnureglur Lonely Planet.

Talsmenn Lonely Planet segjast, að sögn Daily Telegraph, hafa yfirfarið skrif Kohnstamms en ekki fundið neinar rangfærslur í þeim. Bækur Lonely Planet seljast í yfir sex milljónum eintaka ár hvert.

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×