Innlent

Kaupþingsmenn á fund Fjármálaeftirlitsins

Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson koma út úr húsakynnum Fjármálaeftirlitsins í kvöld.
Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson koma út úr húsakynnum Fjármálaeftirlitsins í kvöld. MYND/Anton Brink

Forsvarsmenn Kaupþings, þeir Sigurður Einarsson stjórnarformaður og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri, komu fyrir stundu út úr Fjármálaeftirlitinu en vildu ekki tjá sig um erindi sitt þangað. Sögðu þeir að tilkynningar yrði að vænta á morgun.

Sigurður og Hreiðar funduðu fyrr í kvöld ásamt fleiri forsvarsmönnum Kaupþings í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Um miðnætti komu þeir út og óku að Fjármálaeftirlitinu. Fréttamenn biðu þeirra þegar þeir komu þaðan út en þeir vildu ekkert tjá sig. Sigurður hélt eftir fundinn heim til Lýðs Guðmundssonar, annars Bakkavararbræðra, sem eru stórir hluthafar í Kaupþingi.

Samkvæmt hinum nýju lögum stjórnvalda getur Fjármálaeftirlitið tekið yfir stjórn íslenskra fjármálastofnana. Það hefur þegar verið gert við Landsbankann og Glitni.

Kaupþing fékk fyrr í vikunni 500 milljóna evra brúarlán frá Seðlabanka Íslands og samkvæmt heimildum Vísis gjaldféll það á miðnætti. Kaupþing lagði FIH-bankann í Danmörku fram sem veð fyrir láninu.

Fjöldi fólks streymdi inn í Fjármálaeftirlitið um svipað leyti og Sigurður og Hreiðar komu þangað. Ekki liggur fyrir hvert erindi þess er.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×