Innlent

,,Af hverju segir Ingibjörg ekki bara niður með Ísland?"

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Það er einföldun að draga þá ályktun að Íslendingar eigi sér enga aðra leið en að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir efnahagsaðstoð, að mati Bjarna Harðarsonar þingsmanns Framsóknarflokksins. Honum hugnast ekki yfirlýsingar forystumanna Samfylkingarinnar og framamanna í þjóðfélaginu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, telur að varnir íslensks efnahagslífs felist til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að Evrópusambandinu.

,,Ég tel að sú umræða þar sem Ingibjörg hefur gengið hvað vasklegast fram sé mjög skaðleg íslenskum hagsmunum," segir Bjarni sem telur að hætta verði öllum sandkassaleik í pólitík og horfa verði þess í stað á íslenska hagsmuni.

,,Það að hafa ráðherra í ríkisstjórninni sem virðast ganga allt annarra erinda en þjóðarinnar er náttúrlega algjörlega óþolandi. Af hverju segir Ingibjörg ekki bara niður með Ísland?" spyr Bjarni.

Bjarni segir óviðunandi og óþolandi að á sama tíma og Íslendingar standi í viðkvæðum viðræðum við Rússa og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá standi leiðtogar annars stjórnarflokksins fyrir slíkum málflutningi.

,,Þetta fólk á að velta fyrir sér hvers vegna það situr á Alþingi Íslendinga. Þessi málflutningur er ekki í neinu samræmi við þann eið sem þingmenn sverja þegar þeir taka sæti á Alþingi," segir Bjarni.

Aðspurður hvort hann telji aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ekki vera fýsilegan kost kveðst Bjarni ekki útiloka að leita verði til sjóðssins þar sem staðan sé alvarleg. ,,Aftur á móti huggnast mér ekki að ráðherrar eða framamenn í þjóðfélaginu skuli tala um það það sem eftirsóknarverðan hlut."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×