Erlent

Valdur að mannshvarfi 1977 en ekki ákærður

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jeff Klee sem hvarf sporlaust fyrir rúmum þremur áratugum.
Jeff Klee sem hvarf sporlaust fyrir rúmum þremur áratugum. MYND/Úr fjölskyldualbúmi

Bandarísk yfirvöld hyggjast ekki ákæra mann sem játar að vera valdur að mannshvarfi sumarið 1977.

Gátan um dularfullt hvarf Jeffs Klee, sem saknað hafði verið síðan í júlí 1977, leystist þegar lögreglan í Coral Springs í Flórída fann jarðneskar leifar hans í flaki sendiferðabifreiðar á botni síkis í mars. Könnun á erfðaefni leiddi í ljós að um þennan tiltekna mann var að ræða en hann hvarf á voveiflegan hátt um sumarsólstöður 1977 og var það hans besti vinur, David Cusanelli, sem sá hann síðast á lífi.

Í júlí á þessu ári játaði téður Cusanelli að hafa komið líki vinar síns fyrir í bílnum og ýtt honum út í síkið. Hann neitar hins vegar að hafa átt nokkurn þátt í dauða hans. Segir hann þá hafa átt í deilu og hafi Klee hlaupið á eftir sér en dottið og rekið höfuðið í stein.

Mál vegna manndráps af gáleysi hefði fyrnst árið 1980 en morð af yfirlögðu ráði er ákæruatriði sem ekki fyrnist. Sönnunarbyrði í málinu er hins vegar snúin þar sem engin leið er að sanna hvort Klee hafi dáið í átökum eður ei.

Ákæruvaldið treystir sér því ekki til að aðhafast í málinu þótt fjölskylda hins látna sé harmi slegin. Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×