Innlent

Þorskstofninn styrkist

Vísbendingar gefa til kynna að þorskstofninn sé að styrkjast, að sögn Jóhanns Sigurjónssonar forstjóra Hafrannsóknunarstofnunar.

Stofnmæling botnfiska að haustlagi fór fram í dagana 26. september til 3. nóvember. Heildarvísitala þorsks mældist mun hærri en undanfarin ár. Er vísitalan nú sú hæsta frá því rannsóknirnar hófust árið 1996, rúmlega 10% hærri en hún var árin 1998 og 2004.

,,Mælingarnar gefa jákvæðar vísbendingar að uppbygging þorskstofnsins sé á réttri leið og þær aðgerðir sem gripið var til í fyrra séu að skila sér," segir Jóhann.

Jóhann tekur þó fram að haustmælingin jafngildi ekki eiginlegu stofnmati. Stofnmat er grundvöllur aflaákvörðunar og er gert í mars á ári hverju.

Til rannsóknanna voru notuð rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunarinnar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Alls var togað á 405 stöðvum allt í kringum landið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×