Innlent

INTERPOL leitar barnaníðings

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alþjóðalögreglan INTERPOL leitar þessa manns.
Alþjóðalögreglan INTERPOL leitar þessa manns.

Alþjóðalögreglan INTERPOL kallar eftir hjálp almennings við leit að manni sem hefur sést misnota börn á fjölmörgum myndum sem dreift hefur verið á Netinu. Myndirnar fundust í tölvu dæmds barnaníðings.

Nafn mannsins, þjóðerni og staðsetning eru óþekkt. Hann sést á um það bil 100 myndum sem talið er að hafi verið teknar í Suðaustur Asíu. Þar sést hann misnota að minnsta kosti þrjá drengi á aldrinum 6 - 10 ára. Það var lögreglan í Noregi sem uppgötvaði fyrstu myndirnar í mars árið 2006.

„Lögregluyfirvöld víðs vegar um heim hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur til að finna þennan mann sem ungum börnum stendur augljóslega ógn af. Því biðjum við almenning um að hjálpa okkur að bera kennsl á þennan níðing og koma í veg fyrir að önnur börn verði misnotuð," segir Ronald K. Noble, framkvæmdastjóri INTERPOL, í tilkynningu til fjölmiðla.

„Þegar við gáfum út svipaða yfirlýsingu á síðasta ári náðum við Christopher Paul NEIL með aðstoð frá almenningi. Hann situr nú í fangelsi og á yfir höfði sér ákærur vegna misnotkunar á börnum. Við vonum að fólk víðs vegar um heiminn muni hjálpa okkur við að finna þennan mann," segir Noble.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×