Innlent

Samþykkt að nokkur elstu húsin á Bíldudal verði rifin

Húsafriðunarnefnd hefur samþykkt að nokkur elstu húsin á Bíldudal verði rifin vegna gerðar snjóflóðavarnargarðs. Velunnarar húsanna telja að plássið missi þorpsmyndina og verði ekki svipur hjá sjón, ef húsin verða rifin.

Nú búa aðeins um hundrað manns á Bíldudal eftir mikla fólksfækkun á undanförnum árum, en flest var þar um 400 manns. Upp á síðkastið hefur hinvegar vaknað áhugi meðal heimamanna, og ekki hvað síst brottfluttra Bílddælinga um að vernda þorpsmyndina og nýta hús þar til sumardvalar.

Gott dæmi þessa áhuga er að stofnað hefur verið félg, sem hefur keypt gamalt fiskvinnsluhús og er að breyta því í safna- og sýningahús fyrir ferðamenn.

Útvíkkuð hugmynd þess er að varðveita húsin, sem Ofanflóðasjóður hefur verið að kaupa til niðurrifs. Í umsögn Veðurstofunnar um varnargarðinn er bent á að hann sé brýn öryggisráðstöfun , sem bæta muni öryggi íbúa á Búðargilssvæðinu til mikilla muna.

Verndunarsinnar benda hinsvegar á að að í lagi sé að húsin standi, en verði aðeins nýtt á sumrin. Eins og málilð stendur núna stefnir allt í að húsin verði rifin, en ekki hefur verið byggt íbúðarhús á Bíldudal um margra ára skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×