Íslenski boltinn

Kristján: Viðurkenning til allra leikmanna Keflavíkur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari umferða 1-7.
Kristján Guðmundsson, þjálfari umferða 1-7.

Kristján Guðmundsson, Keflavík, var valinn besti þjálfarinn í umferðum 1-7. Kristján er auðvitað ánægður með uppskeru Keflavíkur á hófinu sem fram fór í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

„Við höfum þrjá leikmenn í þessu liði, besta leikmanninn og ekki síst stuðningsmennina. Já það má því segja að við stöndum upp úr í þessu kjöri," sagði Kristján við Vísi.

Keflvíkingar eru á toppi deildarinnar. „Okkur hefur gengið vel á heimavelli og náð í mikið af stigum í sumar. Það er það sem við lögðum upp með. Við vonumst til að það haldi áfram," sagði Kristján.

„Það eru margir leikmenn sem hafa verið að spila vel. Guðmundur er einn af þeim og hann varð fyrir valinu að þessu sinni. Það er bara frábært fyrir okkur. Viðurkenning til allra leikmanna í liðinu."

Kristján var einnig ánægður með að stuðningsmenn liðsins, Puma-sveitin, hafi fengið viðurkenningu. „Þeir hafa alltaf staðið sig vel. Það heyrist vel í þeim og þeir smita vel útfrá sér í stúkuna. Þeir eru kurteisir og jákvæðir, það hefur líklega áhrif á þetta val. Það er skemmtilegt í kringum þá," sagði Kristján.

Landsbankadeildin hefur verið virkilega skemmtileg í sumar og óvænt úrslit í hverri umferð. „Það er mikið skorað og mestallur hluti deildarinnar er þéttur pakki. Það eru margir leikir eftir og það getur allt gerst. Það er skorað það mikið að markmið margra liða er örugglega að fá á sig sem fæst mörk," sagði Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×