Innlent

Gengishækkun aflýst í Laxá á Ásum

Veiðileyfi í Laxá í Ásum er meðal þeirra aldýrustu á landinu enda aðeins veitt á tvær stangir í allri ánni.
Veiðileyfi í Laxá í Ásum er meðal þeirra aldýrustu á landinu enda aðeins veitt á tvær stangir í allri ánni.

Veiðifélag Laxár á Ásum, einnar dýrustu stangveiðiár landsins, mun á fundi milli jóla og nýárs ákveða hvort gefin verður eftir mikil hækkun á leigunni fyrir ána.

Að sögn Páls Þórhallssonar, formanns veiðifélagsins, hefur leigutaki Laxár á Ásum, Lax-á ehf, farið fram á að leigan verði lækkuð. Samningurinn við Lax-á sé verðtryggður á þrjá mismundandi vegu.

„Samningurinn er að einum þriðja bundinn neysluvísitölu, einum þriðja evru og einum þriðja dollar. Þetta hefur hækkað þvílíkt að það er sjálfsagt ekki fræðilegur möguleiki að þetta standi undir sér,“ segir Páll sem kveður tillögu munu verða lagða fyrir fund veiðifélagsins um að aftengja gengisþáttinn en halda innlenda verðbólguþættinum.

Samkvæmt fundarboði veiðifélagsins féllst stjórnin á að leigan fyrir Laxá yrði 21 milljón króna næsta sumar með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Páll segir að þótt strangt til tekið væri hægt að gera kröfu um efndir á samningnum hafi verið í honum útgönguleið fyrir leigutakann. „Það er ákvæði um að ef upp koma óviðráðanlegir hlutir og þar á meðal er stórkostleg fjármálakreppa. Við myndum kannski ekki geta neitað því að það gæti átt við.“

Að sögn Páls mun sala veiðileyfa fyrir næsta ár hafa gengið afar treglega fram að þessu. „Það veit enginn hver staðan verður eftir mánuð - hvað þá í vor - svo menn halda að sé höndum,“ segir Páll sem kveður marga leigutaka nú ræða við veiðiréttarhafa um breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×