Innlent

Kanna hvort efnamenn skjóti eignum og tekjum úr landi

Ríkisskattstjóri hefur heimild til að kalla eftir upplýsingum um greiðslukortanotkun efnafólks, vegna gruns um að menn sem eiga að greiða skatt hér á landi komi eignum og tekjum undan skatti.

Hæstiréttur felldi úrskurð þar að lútandi í gær. Ríkisskattstjóri höfðaði mál gegn Valitor, greiðslukortum Visa, til að fá þessa heimild. Ríkisskattstjóri fær þar með heimild til að fá upplýsingar yfir hreyfingar á greiðslukortum sem gefin eru út erlendis og eru skuldfærð erlendis, en notuð til úttektar á Íslandi.

Hæstiréttur skyldar Valitor og önnur greiðslukortafyrirtæki til að láta þessar upplýsingar í té af þar sem heildarúttekt hvers korts á hverju tímabili næmi að minnsta kosti fimm milljónum króna. Ríkisskattstjóri vill fá þessar upplýsingar þar sem grunur leiki á að aðilar sem séu skattskyldir hér á landi, hafi komið eignum og tekjum undan skattlagningu með því að flytja fjármagn og fjármálaumsvif sín úr landi þótt skattskylda þeirra hér á landi sé óbreytt.

Ríkisskattstjóri setti mörkin við fimm milljónir króna svo að ekki væri hætta á að undir þetta féllu ferðamenn eða aðrir sem starfa tímabundið hér á landi. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði. Hann taldi vafa leika á því að heimilt væri að veita Ríkisskattstjóra þessar upplýsingar og því bæri að hafna kröfu Ríkisskattstjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×