Innlent

Eldri borgarar með 38% lægri tekjur

Eldri borgarar á Grund.
Eldri borgarar á Grund. Mynd/ Hörður.

Meðaltekjur hjóna yfir sjötugsaldri voru um 38% lægri en meðaltekjur allra hjóna árið 2006. Það er í samræmi við alþjóðlega þróun á vinnumarkaði að heildartekjur fólks lækki eftir miðjan aldur. Tekjuhlutfall þeirra miðað við aðra aldurshópa hefur þó verið nokkuð breytilegt, ef marka má tölur sem birtust í vefriti fjármálaráðuneytisins. Þar segir að árið 1995 hafi meðaltekjur hjóna yfir sjötugsaldri verið um 30% lægri en meðaltekjur allra hjóna. Þegar uppsveiflan fram að aldamótum gekk yfir hafi hinir eldri ekki að halda fyllilega í við þá yngri og tekjurnar orðið 41% lægri en allra hjóna árið 2000. Síðan þá hefur dregið saman með hverju ári og árið 2006 hafi hópurinn verið með 37,7% lægri tekjur en öll hjóna.

Hlutur fjármagnstekna vex

„Samsetning tekna hjá eldra fólki hefur tekið miklum breytingum og þær breytingar munu halda áfram á næstu árum. Hlutur fjármagnstekna hefur þannig vaxið úr því að vera 8% af tekjum árið 1995 í að vera orðinn 39% árið 2006. Allan tímann sem hér er til athugunar hafa fjármagnstekjur þessa hóps verið hærri en meðalfjármagnstekjur allra hjóna. Hlutur atvinnutekna, sem er uppistaðan af því sem á myndinni er í flokknum aðrar tekjur hefur farið stöðugt minnkandi á þessu tímabili enda fækkar í þeim hópi sem heldur áfram störfum eftir 70 ára aldur til að afla nauðsynlegra ráðstöfunartekna," segir fjármálaráðuneytið.

Lífeyrissjóðirnir mikilvægir

Þá segir að eftir árið 2000 hafi lífeyrissjóðirnir haldið sínum hlut nokkurn veginn í tekjumynd þessa hóps og það hafi Tryggingastofnun einnig gert þótt vaxandi tekjur hópsins hafi leitt til þess að hluturinn hafi rýrnað örlítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×