Innlent

Enn ekki hægt að ræða við konu vegna meintrar árásar eiginmanns

MYND/GVA

Lögregla hefur ekki enn getað tekið skýrslu af konu sem lögð var inn á sjúkrahús í síðustu viku en grunur leikur á að eiginmaður hennar hafi gengið í skrokk á henni. Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins og rennur það út á morgun.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir aðspurður ómögulegt að segja til um hvenær hægt verði að taka skýrslu af konunni.

Talið er að árásin hafi átt sér stað á heimili hjónanna í Breiðholti á mánudag. Konan mun í kjölfarið hafa leitað á náðir vina og gist hjá þeim. Samkvæmt upplýsingum Vísis missti konan meðvitund daginn eftir og var hún þá flutt á spítala. Var hún hætt komin vegna blæðingar inn á heila en hún gekkst undir bráðaaðgerð og er ekki lengur í lífshættu.

Samkvæmt heimildum Vísis hefur maðurinn ekki áður verið kærður fyrir heimilisofbeldi en lögreglan hefur áður verið kölluð að heimili hjónanna vegna heimiliserja. Friðrik Smári sagðist í samtali við Vísi ekkert geta gefið upp um þetta atriði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×