Innlent

Brýnt að tryggja aðgengi banka að ódýru lánsfé

MYND/E.Ól

Fjármálaráðuneytið segir í nýrri þjóðhagsspá sinni til næstu fimm ára að brýnt sé að Seðlabankinn, hið opinbera og bankarnir sjálfir stígi nauðsynleg skref til að tryggja að kostnaður við fjármögnun erlendis frá endurspegli betur stöðu íslenskra fjármálafyrirækja og hagkerfisins í heild.

Það ætti að bæta aðgengi innlendra banka að erlendu lánsfé á viðunandi kjörum. Segir ráðuneytið að neikvæð og oft óraunsæ umræða á erlendum vettvangi um stöðu íslenskra banka hafi lagst á sveif með almennri áhættufælni á alþjóðlegum mörkuðum og þannig magnað upp versnandi aðgengi bankanna að lánsfé í erlendri mynt.

Fjármálaráðuneytið telur að hægt væri að styrkja frekar undirstöður fjármálastöðugleika með því að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Slíkt gæti jafnframt auðveldað fjárfestum aðgengi að vaxtamun milli Íslands og lágvaxtaríkja sem hefði þá áhrif til að styrkja gengi íslensku krónunnar og styðja þannig við stöðugri horfur í verðlagsmálum.

Fjármálaráðuneytið segir enn fremur að hagstjórnarviðbrögð Seðlabankans að undanförnu, með hækkun stýrivaxta í mars og apríl, hafi verið í fullu samræmi við fráviksdæmi í síðustu haustskýrslu fjármálaráðuneytisins. Þar hafi verið var horft til hagstjórnarviðbragða ef kæmi til 20 prósenta lækkunar á gengi krónunnar. „Aðhaldsstig peningamálastefnunnar þarf að haldast áfram mikið þar sem afar brýnt er að miklar verðbólguvæntingar nái ekki að festa sig í sessi þegar verðbólguhorfur versna til skamms tíma," segir í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×