Innlent

Telur að undirskrift bróður á erfðaskrá hafi verið fölsuð

Maður á Akureyri telur sig hafa orðið af stórfé þar sem undirskrift á erfðaskrá bróður hans hafi verið fölsuð. Líknarfélög missa vænan spón úr aski sínum ef þetta reynist rétt.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra ákvað í dag að láta kalla til taugasérfræðing af Landspítalanum sem óvilhallan matsmann í máli þar sem tekist er á um hvort undirskrift hafi verið fölsuð í erfðaskrá eða ekki.

Fyrir nokkrum árum lést maður á Akureyri og lét eftir sig mikla fjármuni sem hann ánafnaði líknarfélögum, Akureyrarbæ og fleiri aðilum. Jón G. Guðlaugsson, oftast kallaður Jón hlaupari á Akureyri, er hálfbróðir mannsins og telur hann að erfðaskráin hafi verið fölsuð. Hann fékk engan hlut arfsins og hefur árum saman barist fyrir því að málið verði tekið fyrir hjá dómstólum.

Nú er það komið þangað en óvíst um lyktir þar sem málið er enn matsmál á þessu stigi. Það mun skýrast ekki síðar en 16. júní næstkomandi hvað Finnbogi Jakobsson, taugasérfræðingur á Landspítala, hefur að segja um undirskriftina en ef málið verður tekið fyrir og úrskurður fellur Jóni hlaupara í hag verða líknarfélög sem og fleiri aðilar af tugmilljóna fjármunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×