Innlent

Bent á að fá sér aðra ruslatunnu

Svona líta sorpmál íbúans í Grindavík og nágranna hans út á sjöunda degi frá losun tunnanna.
Svona líta sorpmál íbúans í Grindavík og nágranna hans út á sjöunda degi frá losun tunnanna.
„Mér var bara sagt að ég skyldi breyta innkaupunum,“ segir Þór Björnsson íbúi í Grindavík, sem er ekki sáttur við tíðni sorphirðu í bænum. Þar eru sorptunnur losaðar á tíu daga fresti en ekki vikulega eins og víða annars staðar.

„Við erum fimm manna fjölskylda, þar af tvö ungbörn,“ útskýrir Þór. „Eftir viku er tunnan orðin full og svo flæða ruslapokarnir um allt. En ég sagði bara viðmælanda mínum hjá bæjar-félaginu að gleyma þessu þegar hann vildi fara að ráðskast með innkaupin hjá okkur.“

Spurður hvers vegna fjölskyldan fái sér ekki bara aðra tunnu til viðbótar segir Þór að það myndi stórhækka fasteignagjöldin, þar sem sorphirðugjald væri innifalið í þeim. Við svoleiðis aukapakka mættu fæstir við í dag.

„Já, ég benti manninum á að fá sér aðra tunnu eða þá að breyta innkaupum heimilisins,“ segir Jón Þórisson fjármálastjóri bæjarins. Hann segir að sorpmál séu orðin vandamál alls staðar. Umbúðafrek neysluvara skili miklu í sorp. Losun á tíu daga fresti hafi verið tekin upp fyrir fjórum árum.

„Þá kom þessi óánægja upp,“ segir Jón. „Svo breytti fólk innkaupavenjunum, forðaðist umbúðamikinn varning og þar með græddu allir.“- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×