Innlent

Landsframleiðsla eykst um fimm prósent milli ára

MYND/GVA

Landsframleiðsla er talin hafa vaxið um fimm prósent að raungildi á öðrum fjórðungi ársins í samanburðui við sama fjórðung í fyrra. Þetta sýna nýjar tölur Hagstofunnar.

Þar segir einnig að á sama tíma megi ætla að þjóðarútgjöld hafi dregist saman um átta prósent þar sem einkaneysla dróst saman um rösklega þrjú prósent og fjárfesting um rúman fjórðung. Samneyslan jókst hins vegar um tæp prósent.

Glögg merki þess að álframleiðsla Fjarðaáls sé komin inn

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar jókst útflutningur um fjórðung á tímabilinu en innflutningur dróst saman um 12 prósent. Þessi þróun veldur því að verulega dró úr halla á vöru- og þjónustuviðskiptum samanborið við annan ársfjórðung 2007 og skýrir þessi mikli bati vöxt landsframleiðslunnar á sama tíma og þjóðarútgjöld dragast saman.

Enn fremur segir Hagstofan að landsframleiðslan á fyrsta og einkanlega á öðrum ársfjórðungi þessa árs beri þess glögg merki að álframleiðsla Fjarðaáls komi nú inn. Stækkun Norðuráls hafi einnig sitt að segja. „Afar lauslega má áætla að þessi framleiðsluaukning auki hagvöxt á 2. fjórðungi um rösk 2% og um ½ til 1% á 1. fjórðungi," segir á vef Hagstofunnar.

Landsframleiðslan jókst um fimm prósent í fyrra

Hagstofan birtir einnig endurskoðaðar tölur um landsframleiðslu fyrir allt árið 2007. Fram kemur meðal annars að landsframleiðslan á árinu 2007 varð 1.293 milljarðar króna og jókst að raungildi um fimm prósent frá fyrra ári. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 4,4 prósent vaxtar á árinu 2006.

„Vöxt landsframleiðslunnar á liðnu ári má öðru fremur rekja til verulegs vaxtar útflutnings og aukningar einkaneyslu. Á sama tíma dróst fjárfesting saman og einnig vöruinnflutningur. Þessi þróun er allt önnur en á undanförnum fjórum árum þegar hagvöxtur var drifinn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu.

Laun- og fjáreignatekjur frá útlöndum jukust meira en nam aukningu launa- og fjármagnsgjalda til útlanda. Þessi aukning og óbreytt viðskiptakjör leiddu til þess að þjóðartekjur jukust á árinu 2007 mun meira en landsframleiðslan eða um 7,8% samanborið við 1,6% vöxt árið áður," segir Hagstofan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×