Erlent

Kærð fyrir ólöglega verslun með hluta af 1.007 líkum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/Pjetur Sigurðsson

Fjöldi fjölskyldna í bandarísku borgunum New York, New Jersey og Pennsylvania hefur lagt fram kærur á hendur sjö manns, nokkrum útfararþjónustufyrirtækjum og fyrirtækjum sem hafa milligöngu um verslun með líkamsvefi.

Er hinum stefndu gefið að sök að hafa ólöglega komist yfir og selt ýmsum sjúkrahúsum líkamshluta af 1.007 látnum manneskjum til notkunar við í- og ágræðslur þar sem lifandi sjúklingar áttu í hlut.

Talið er að hagnaður líkamshlutasalanna nemi um 3,8 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði um 283,3 milljóna króna. Er hinum grunuðu gefið að sök að hafa látið líkin líta eðlilega út við kistulagnir og jarðarfarir með ýmsum uppfyllingarefnum, t.d. járnrörum.

Einnig er þess getið í kærunum að sökunautarnir hafi falsað fjölda skjala þar sem ýmsum aðilum er veitt leyfi til að ráðstafa líffærum í samræmi við óskir meintra ættingja. Í einu tilfellanna átti eiginkona látins manns að hafa veitt skriflegt leyfi sitt en við eftirgrennslan kom í ljós að maðurinn hafði aldrei verið kvæntur þeirri konu sem ritaði nafn sitt undir skjalið.

Gert er ráð fyrir að réttarhöldin hefjist í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×