Innlent

Formaður Framsóknarflokksins segir Geir líða fyrir deyfð

Forsætisráðherra hefur sýnt forystuleysi við stjórn efnhagsmála og geldur nú fyrir það að mati formanns Framsóknarflokksins. Aðeins fjórðungur þjóðarinnar treystir Geir H. Haarde til þess að leiða Ísland út úr kreppunni.

Tæplega helmingur þjóðarinnar treystir ekki Geir H. Haarde til þess að leiða Ísland út úr yfirstandandi kreppu. Þetta kemur fram könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og sagt var frá í fréttum í gær.

Spurt var - Hversu vel eða illa treystir þú Geir H. Haarde, forsætisráðherra, til þess að leiða ísland út úr þeirri kreppu sem nú stendur yfir?

Um 25 prósent treysta forsætisráðherra vel, 29 prósent hvorki vel né illa, en um 47 prósent treysta honum illa.

Geir nýtur mests trausts hjá kjósendum sjálfstæðisflokks en minnst hjá kjósendum Vinstri grænna. Um 67 prósent kjósenda Framsóknarflokks treysta forsætisráðherra illa.

Guðni Ágústsson, formaður framsóknarflokks, segir að niðurstöðurnar komi ekki á óvart. Hann segir að niðurstaðan sé í samræmi við það sem hann finni á götunni, að ríkisstjórnin sé á fallandi fæti. Hann segir að Geir sé að líða fyrir deyfð sína og forystuleysi ríkisstjórnarinnar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×