Innlent

Árni Johnsen krefst 5 milljóna króna miskabóta af Agnesi Bragadóttur

Árni Johnsen mun krefjast fimm milljóna króna í miskabætur frá Agnesi Bragadóttur vegna ummæla sem höfð voru um hann í útvarpsþættinum „Í bítið á Bylgjunni" þann 9 júlí síðastliðinn. Árni mun jafnframt krefjast þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk.

Í þættinum sagði Agnes að Árni væri dæmdur glæpamaður. Hann væri mútuþægur og dæmdur fyrir umboðssvik í tveggja ára fangelsi. Hún bætti svo um betur með því að kalla Árna hálfgert stórslys.

Það er Einar Hugi Bjarnason, hjá Ergo lögmönnum, sem flytur málið fyrir Árna. „Þessi ummæli koma fram í þessum útvarpsþætti og útbreiðsla ummælanna var talsvert mikil," segir Einar Hugi. Hann segir að miskabótakrafan sé byggð á því að ummælin hafi verið sérstaklega rætin og Árni hafi orðið fyrir verulegri röskun og óþægindum vegna þessara ummæla.

Einar Hugi segir að hafa verði í huga að Árni hafi tekið út refsingu fyrir þann refsidóm sem hann hafi fengið. Í almennum hegningarlögum sé beinlínis ákvæði um að bannað sé að meiða æru manna sem hafi tekið út refsingu og hlotið uppreist æru frá forseta. „Menn hljóta að velta því fyrir sér hvaða þýðingu það hefur fyrir menn að fá uppreist æru ef menn geta leyft sér að tala með þessum hætti," segir Einar Hugi.

Einar segir að næsta skref í stöðunni sé að ráðast í stefnugerð og því næst verði stefnan birt og vonandi verði hún þingfest í byrjun september.


























Tengdar fréttir

Segist hafa talað kjarnyrta íslensku og vitnað í dóm Hæstaréttar

Agnes Bragadóttir segist hafa verið að tala kjarnyrta íslensku og vitna í dóm Hæstaréttar þegar hún lét ummæli falla um þingmanninn Árna Johnsen í þættinum „Í bítið á Bylgjunni“ fyrir skömmu. Fram hefur komið í fréttum að Árni íhugi að fara í meiðyrðarmál vegna ummælanna og er kominn með lögfræðing í málið.

Árni Johnsen enn að fara yfir stöðuna

Einar Hugi Bjarnason, lögfræðingur Árna Johnsen alþingismanns, vildi ekki gefa upp hvort Árni komi til með að stefna Agnesi Bragadóttur, blaðamanni Morgunblaðsins, fyrir meiðyrði. „Við erum að fara yfir stöðuna en það ætti að liggja fyrir á miðvikudag hvað við gerum," útskýrði Einar Hugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×