Innlent

Hringvegurinn rofinn á 200 metra kafla fyrir norðan

Hringvegurinn er í sundur á um 200 metra löngum kafla í vestanverðum Biskupshálsi, skammt frá Grímsstöðum á fjöllum. Að sögn lögreglunnar á Húsavík hefur veginum bókstaflega skolað burtu en gríðarlegar leysingar eru á svæðinu. Vöruflutningabíll frá Flytjanda lenti í vatnselgnum en ökumanninum tókst að forða sér áður en vegurinn gaf sig og bíllinn valt ofan í fljótið sem hafði myndast. Hann er talinn ónýtur.

Lögregla segir að nú sé svo komið að hringvegurinn á milli Norður- og Austurlands sé lokaður og ekki sé útlit fyrir að hann verði opnaður í bráð. Engin hjáleið er til staðar og því verða þeir sem nauðsynlega þurfa að komast á milli landshlutana að fara strandleiðina svokölluðu en þá þarf að þræða í gegnum bæina við ströndina.

Eins og áður sagði er vegurinn bókstaflega horfinn á 200 metra löngum kafla en auk þess er hann stórkemdur á um kílómeters kafla. Að sögn lögreglu er veðrið þokkalegt á svæðinu fyrir utan gríðarlega þoku. Því er brýnt fyrir ökumönnum að þeir fari varlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×