Innlent

Svaraði því ekki hvort stjórn Seðlabankans nyti enn trausts

MYND/Stöð 2

Geir H. Haarde forsætisráðherra svaraði ekki því hvort stjórn Seðlabankans nyti enn þá trausts ríkisstjórnarinnar.

Í fyrirspurnum blaðmanna á daglegum fundi forsætisráðherra og viðskiptaráðherra í Iðnó var Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra spurður um þau orð Ágústs Ólafs Ágútssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, að víkja ætti stjórn Seðlabankans frá.

Björgvin sagði að þessi mál hefðu ekki komið á borð ríkisstjórnarinnar. Geir H. Haarde sagðist ekkert hafa breyst frá því í gær þar sem hann sagðist ekki sjá ástæðu til að skipta um stjórn Seðlabankans. Þegar hann var þá spurður hvort stjórn Seðlabankans nyti enn trausts svaraði hann engu heldur beindi orðinu til næsta blaðamanns. Geir var einnig spurður um það hvort skilaboð stjórnvalda út á við væru misvísandi og hvort þau væru að tala nógu skýrt og þá svaraði Geir:„Já, við gerum það."

Björgvin var einnig spurður um þau orð Ágúst Ólafs að til greina kæmi að frysta eigur auðmanna sem eiga hlut að máli varðandi Icesave-reikningana. Björgvin sagði slíkt ekki hafa verið rætt enn en ef gripið yrði til slíks yrði það í höndum Fjármálaeftirlitsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×