Erlent

Ógilti hjónaband átta ára stúlku

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Dómstóll í Jemen ógilti í gær hjónaband átta ára gamallar stúlku og þrítugs manns auk þess að úrskurða eiginmanninum fyrrverandi bætur að jafnvirði tæplega 20.000 króna úr hendi fjölskyldu stúlkunnar.

Hin átta ára gamla eiginkona hafði lagt fram kæru á hendur eiginmanninum sem hún kvað leggja hendur á hana og neyða hana til kynlífs. Krafðist hún skilnaðar af þessum sökum með aðstoð lögfræðings síns og mannréttindafrömuðarins Shatha Nasser. Dómstóllinn veitti ekki eiginlegan skilnað en ógilti þess í stað hjónabandið til að stemma stigu við því að fyrrverandi eiginmaðurinn gæti höfðað mál til endurgildingar hjónabandsins.

Áhorfandi að réttarhöldunum bauðst til að greiða bæturnar sem fjölskyldu stúlkunnar var dæmt að greiða. Hjónabönd barnungra kvenna og eldri manna tíðkast hjá mörgum þjóðflokkum í arabalöndunum, einkum vegna fátæktar fjölskyldna brúðanna. Ekki er þó títt að svo ungar stúlkur sem hér greinir séu giftar.

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×