Íslenski boltinn

Þorvaldur: Almarr er framtíðarmaður

Elvar Geir Magnússon skrifar
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.
Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram.

Almarr Ormarsson, tvítugur leikmaður að norðan, er genginn í raðir Fram í Landsbankadeildinni.

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram, þekkir Almarr vel enda er hann bróðursonur hans.

„Það er okkar von að þetta sé góð viðbót við liðið. Þetta er leikmaður sem er í okkar framtíðaráætlunum og mun vonandi halda áfram að bæta sig hjá okkur," sagði Þorvaldur við Vísi.

Almarr kemur frá KA og gerði samning við Fram út tímabilið 2010. „Hann er mjög metnaðarfullur og það er gaman að vinna með þannig leikmönnum. Þetta er alls engin skyndilausn heldur eru vonir bundnar við að hann leiki stórt hlutverk með Fram á næstu árum," sagði Þorvaldur.

Almarr er virkilega fjölhæfur leikmaður, getur leikið allstaðar á miðjunni og einnig frammi. Hann á ellefu landsleiki að baki með U19 ára landsliðinu og var þar m.a. notaður sem hægri bakvörður. „Hann mun vonandi finna sér framtíðarstöðu hjá okkur og festast þar," sagði Þorvaldur.

Almarr er uppalinn hjá KA og á 54 leiki að baki með liðinu í Íslandsmóti og bikarkeppni. Hann fetar í fótspor föður síns, Ormars Örlygssonar, sem varð Íslands- og bikarmeistari með Fram á níunda áratug síðustu aldar.

Almarr er annar leikmaðurinn sem gengur í raðir Fram síðan félagaskiptaglugginn opnaði. Hinn er Viðar Guðjónsson. Þorvaldur segist ekki búast við að fleiri leikmenn verði fengnir áður en glugganum verður lokað.

„Það er víst þannig í þessum heimi að ekkert er ókeypis. Það er ekkert á borðinu hjá okkur núna en hlutirnir eru fljótir að gerast svo maður getur ekki útilokað neitt," sagði Þorvaldur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×