Erlent

McCain segir skattastefnu Obama sósíalíska

Baráttan um forsetaembættið Bandaríkjunum tók á sig nýja mynd í dag þegar John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, lýsti því yfir að áherslur keppinautarins Baracks Obama í skattamálum bæru keim af sósíalisma. Eftir því sem bandarískir miðlar greina frá er slíkt mikið hnjóðsyrði þar í landi.

Bæði Obama og McCain voru á ferðinni í dag þar sem þeir skutu hvor á annan á fjöldasamkomum, reynda misstórum. Á samkomu Obama í St. Louis í Missouri-ríki mættu hundrað þúsund manns á meðan nokkur þúsund mættu á fundi McCains í Virginíu og Norður-Karólínu. Þykir þetta undirstrika stöðu þeirra í kosningabaráttunni en Obama hefur að undanförnu verið með mikið forskot á McCain

Eftir því sem Wall Street Journal greinir skaut McCain föstum skotum að Obama í dag vegna skattastefnu hans. Sakaði hann demókratann um að vilja breyta skattstjóraembættinu í landinu í velferðarstofnun með því að gefa fólki skattaafslátt sem hefði of litlar tekjur til þess að greiða tekjuskatt.

„Í Evrópu eru sósíalísku leiðtogarnir sem dást að andstæðingi mínum nógu hreinskilnir um áform sín," sagði MCain í útvarpsávarpi. „Að hækka skatta á einn hóp til þess að gefa öðrum fé er ekki skattalækkun. Þar er ríkið að gefa peninga," sagði hann enn fremur. Þá greinir Wall Street Journal frá því að á annarri af samkomum McCains hafi kona úr hópi áhorfenda hrópað upp yfir sig að Obama væri sósíalisti.

Obama svaraði hins vegar orðum McCains á þann hátt að báðir vildu þeir lækka skatta. Hann vildi lækka skatta á hinar vinnandi stéttir en McCain gefa stórfyrirtækjum og auðmönnum skattaafslátt. „John McCain er í svolitum tengslum við erfiðleika hins almenna borgara að hann hlýtur að vera fyrsti stjórnmálamaðurinn í sögunni að kalla skattalækkanir fyrir hinar vinnandi stéttir velferðarmál," sagði Obama enn fremur.

Búast má við að barátta þeirra Obama og McCain harðni frekar á næstu dögum enda einungis rúmar tvær vikur til forsetakosninga í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×