Erlent

Kreppufundur iðnríkja verður í Bandaríkjunum

MYND/Reuters

Leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims og fleiri ríkja vegna fjármálakreppunnar mun fara fram í Bandaríkjunum og mun George Bush Bandaríkjaforseti tilkynna um það síðar í dag.

Þetta hefur Reuters-fréttaveitan eftir háttsettum heimildarmanni innan Bandaríkjastjórnar. Heimildarmaðurinn segir að fundurinn verði bráðlega og þar verði rætt um átak þjóða heims gegn yfirstandandi fjármálkreppu og aðgerðir til þess að tryggja að slík kreppa endurtaki sig ekki. Þá segir heimildarmaðurinn að Bush vilji að bæði iðnríki og þróunarríki sendi fulltrúa sína í fundinn.

Beðið hefur verið eftir ákvörðun um fundinn en líklegt er að hann beri á góma á fundi Bush og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og Joses Manuels Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í forsetabústaðnum í Camp David síðar í dag. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, bauð í dag fram húsnæði samtakanna í New York fyrir fundinn en ekki liggur fyrir hvort því boði hafi verið tekið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×