Innlent

Sálfræðiráðgjöf vegna kreppunnar veitt í Heilsuverndarstöðinni

MYND/E.Ól

Geðsvið Landspítalns mun í dag klukkan eitt opna sálfræðiráðgjöf fyrir einstaklinga sem glíma við mikinn kvíða, depurð, sektarkennd eða önnur álagseinkenni vegna þróunar fjármála á Íslandi.

Fram kemur í tilkynningu spítalans að sálfræðiráðgjöfin verði í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Til að byrja með munu tveir sálfræðingar sinna þjónustunni en einnig verður eitt stöðugildi fyrir aðstoðarmann sem mun sjá um að svara fyrirspurnum frá almenningi, bóka viðtöl og halda utan um verkefni sem lúta að ráðgjöfinni.

Sími ráðgjafarinnar verður 458 9999. Ráðgjöfin verður opin á virkum dögum frá kl. 9 til 16.

„Vikulegir samráðsfundir verða haldnir með sviðsstjórum geðsviðs, forstöðusálfræðingi og yfirlækni og deildarstjóra bráða- og ferliþjónustu á geðsviði auk þess sem samráð verður haft við heilsugæsluna, Landlæknisembættið og ráðuneyti heilbrigðismála og félagsmála eftir þörfum," segir í tilkynningunni.

„Um er að ræða bráðaviðtal þar sem geðheilsa einstaklings verður metin og farið yfir bjargráð og streituvarnir. Í framhaldi af þessu viðtali koma eftirfarandi úrræði m.a. til greina:

-Sé um alvarlegt svefnleysi, mikinn kvíða eða þunglyndi að ræða þar sem talin er þörf á viðtölum lækna og/eða lyfjagjöf verður vísað á heilsugæsluna sem mun reyna að sinna slíkum einstaklingum eins fljótt og aðstæður leyfa. Einnig koma til greina tilvísanir til fagfólks á stofu eftir efnum og aðstæðum einstaklinga.

- Ef viðkomandi er metinn í sjálfsvígshættu eða í alvarlegri geðlægð verður honum vísað til meðferðar á bráðamóttöku geðsviðs. Sálfræðingur sem sér um matið hringir þá í vakthafandi lækni í bráðamóttöku og boðar komu viðkomandi sem fær eins fljótt og auðið er viðeigandi móttökur og meðferð.

-Ef þörf er á, mun verða boðið upp á fyrirlestra þar sem rætt verður um viðbrögð vegna álags, kvíða, depurðar og svefnerfiðleika."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×