Innlent

Philip Green á Íslandi - fundaði með viðskiptaráðherra

Philip Green, einn ríkasti maður Bretlands, fundaði ásamt Baugsmönnum með viðskiptaráðherra í dag. Stjórnarformaður Baugs segir fyrirtækið skaðast vegna milliríkjadeilu Íslands og Bretlands.

Það var um hádegisbil sem að þau Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Baugs, Gunnar Sigurðssson, forstjóri Baugs, Ingibjörg Pálmadóttir stjórnarmaður í Baugi og Philip Green einn ríkasti maður Bretlands mættu á fund viðskiptaráðherra. Green er einn af tíu ríkustu mönnum í Bretlandi og er verulega umsvifamikill í verslunarrekstri þar í landi.

Green vildi lítið segja eftir fundinn en Jón Ásgeir sagði þá hafa verið að ræða þá deilu sem komin væri upp á milli Breta og Íslendinga. Baugur rekur fjölda verslana í Bretlandi og hátt í sextíu þúsund manns vinna þar hjá fyrirtækinu.

Fréttaflutningur í breskum fjölmiðlum, um að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar íslensku bankanna erlendis, hafa valdið óróa meðal birgja Baugs. Bresk stjórnvöld hafa jafnframt hótað því í fjölmiðlum að frysta allar eignir Íslendinga í Bretlandi. Jón Ásgeir segir að deilan hafi skaðað Baug.

Samkvæmt heimildum fréttastofu kemur til greina að Green kaupi hlut í Baugi en hvorki Green né Jón Ásgeir vildu staðfesta það.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×