Innlent

Segir drauma Íslendinga að verða að engu

MYND/Valgarður

Breska blaðið Daily Telegraph fjallar í kvöld um hinar miklu breytingar sem eru yfirvofandi á íslensku efnahagslífi og segir mikið hafa breyst í landinu á einu ári.

Vísað er til þess að í nóvember í fyrra hafi Ísland verið meðal fremstu landa á Vesturlöndum og að lífsskilyrðin hafi verið þau bestu í heimi samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Efnahagslegt kraftaverk hafi átt sér stað hér á landi og ekkert bankakerfi í heiminum hafi þanist út jafnhratt. Skuldir þjóðarbúsins hafi hins vegar hlaðist hratt upp og útlit sé fyrir að veislunni ljúki á hroðalegan hátt.

Þá lýsir blaðamaður þeirri kreppu sem skekið hefur landið síðustu daga og segir landið á leið aftur í þá stöðu sem það hafi verið áður, meðal fátækari ríkja Evrópu.

Bent er á að Kaupþing komist ekki á lista yfir hundrað stærstu banka heims en hafi engu að síður mikil áhrif á breskt efnahagslíf því bankinn hafi fjármagnað ýmis kaup í Bretlandi. Þá sé óvissa um eignir Baugs í Bretlandi. Bent er á að á uppgangstímunum hafi eignir fjölskyldna landsins aukist um 45 prósent að meðaltali á fimm árum og þá hafi landsframleiðsla aukist um fjögur til sex prósent á ári. Í boði hafi verið hundrað prósenta húsnæðislán, mörg hver í erlendri mynt. Þegar gengi krónunnar hafi fallið hafi lánin tvöfaldast og þúsundir horfi fram á erfiðleika.

Telegraph segir það eiginlega hafa verið óumflýjanlegt að alþjóðakreppan hafnaði á ströndum Íslands. Stjórnvöld hafi tryggt allar eignir Íslendinga í bönkum en geti ekki tryggt eignir þúsunda Breta sem lagt hafi peninga inn á netreikninga.

Telegraph segir að það hafi tekið nokkurn tíma fyrir ástandið að versna en í vor þegar menn fóru að spyrja spurninga um efnahagslífið hafi landsmenn verið í afneitun. Vitnað er til orða Dags B. Eggertssonar, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem segir suma hafa nefnt hagfræðina hér hunangsfluguhagfræði „því það er erfitt að átta sig á því hvernig hún flýgur en hún gerir það samt," segir Dagur. Telegraph segir þó að hunangsflugur flúgi ekki hátt nú frekar en milljarðamæringar sem reynt hafi að kaupa verslunargöturnar á Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×