Innlent

Atvinnuleysi eykst um níu prósent en er áfram lítið

Skráð atvinnuleysi í ágúst reyndist 1,2 prósent og jókst um tæp níu prósent frá fyrra mánuði. Þetta sýna nýjar tölur Vinnumálastofnunar.

Á sama tíma á árinu 2007 var atvinnuleysi 0,9 prósent. Atvinnuleysið hefur því aukist talsvert frá því sem það var með minnsta móti í fyrra.

Atvinnuleysi eykst aðallega á höfuðborgarsvæðinu, alls um 13 prósent, en á landsbyggðinni breytist atvinnuleysi lítið og er 1,3 prósent eða sama og í júlí. Atvinnuleysi karla eykst um 14 prósent frá júlí og er eitt prósent en var 0,9 prósent í júlí. Atvinnuleysi kvenna eykst minna eða um rúm fjögur prósent og mælist 1,6 prósent en það var 1,5 prósent í júlí.

Á vef Vinnumálstofnunar kemur fram að oft minnki atvinnuleysið milli ágúst og september en vegna samdráttar í efnahagslífinu sé líklegt að atvinnuleysið í september í ár muni aukast og verða á bilinu 1,2-1,5 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×