Innlent

UVG vilja að Samfylkingin slíti stjórnarsamstarfinu

Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður UVG.
Steinunn Rögnvaldsdóttir, formaður UVG.

Ung vinstri græn krefjast þess að boðað verði til kosninga eins fljótt og auðið er. Þá er Samfylkingin hvött til að rifta stjórnarsamstarfinu. Í ályktun sem félagið hefur samþykkt kemur fram að eftir það sem „á undan sé gengið er það bæði siðferðisleg krafa og lýðræðislega nauðsynlegt að kosið verði um nýtt fólk og nýja stefnu til að byggja á til framtíðar."

Þá segir að þeir embættis- og stjórnmálamenn sem komið hafa þjóðfélaginu á hvolf verði að axla ábyrgð og víkja tafarlaust. „Þar á meðal þarf að skipta algjörlega um stjórnendur bæði í Seðlabankanum og í Fjármálaeftirlitinu. Öðruvísi næst ekki að byggja upp traust þjóðarinnar, og heimsbyggðarinnar allrar, á íslenskum stjórnvöldum," segir einnig.

„Ung vinstri græn benda á að Samfylkingin getur rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn rift stjórnarsamstarfinu og krafist kosninga hvenær sem er. Ábyrgð Samfylkingarinnar er því engu minni en Sjálfstæðisflokksins. Ung vinstri græn hvetja Samfylkinguna til að taka strax af skarið og skera þjóðina niður úr þeirri snöru sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hnýtt undanfarin 17 ár," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×