Innlent

Leggur fram tillögu um ESB-atkvæðagreiðslu

MYND/GVA

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að atkvæðagreiðsla fari fram um aðildarviðræður við Evrópusambandið hér á landi eigi síðar en í maí á næsta ári.

Jafnframt að Íslands skuli óska eftir aðildarviðræðum fari atkvæðagreiðslan þannig og náist samkomulag um inngöngu verði það borið undir þjóðaratkvæði. Birkir hafði í fjölmiðlum boðað þingsályktunartillöguna og var hún lögð fram á þingi í gær.

Samkvæmt tillögunni á ríkisstjórnin að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna um aðildarviðræður. „Stjórnarskrá lýðveldisins byggist á því grundvallarviðhorfi að uppruni ríkisvaldsins liggi hjá þjóðinni og standa ákvæði hennar ekki í vegi fyrir því að Alþingi vísi jafn viðamiklu máli og hér um ræðir til þjóðaratkvæðis. Almenningur á að fá tækifæri til að taka afstöðu til þeirra grundvallarspurninga sem eru samfara hugsanlegri Evrópusambandsaðild," segir í greingargerð með tillögunni.

Birkir bendir á að skiptar skoðanir séu um málið innan allra stjórnmálaflokka á Íslandi og tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu sé því leið sátta í þessu mikilvæga máli og muni jafnframt leiða til markvissari og upplýstari umræðu um kosti og galla aðildar að sambandinu.

„Verði niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu á þá leið að Íslandi beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu verður sitjandi ríkisstjórn og Alþingi að leggja mat sitt á hvort breyta þurfi stjórnarskránni meðan á aðildarviðræðunum stendur. Sumir hafa haldið því fram að þörf sé á því til að styrkja lagagrundvöll aðildarinnar og jafnvel til að tryggja einstök samningsmarkmið Íslands. Komist á samningur í framhaldi af aðildarviðræðum þarf með hliðsjón af 21. gr. stjórnarskrár að bera hann undir Alþingi sem í samræmi við ályktun þessa yrði að taka afstöðu til fullgildingar eftir að hafa vísað málinu til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar,“ segir Birkir.

Enn fremur: „Í því efnahagsástandi og alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem Ísland býr við er nauðsynlegt að fá hið fyrsta, og ekki síðar en í maí 2009, úr því skorið hvort íslenska þjóðin sé reiðubúin að hefja viðræður við Evrópusambandið með aðild í huga. Ef þjóðin verður því samþykk fæst úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, með aðildarviðræðum, hvaða markmiðum og ávinningi Ísland gæti náð með aðild að sambandi hinna 27 fullvalda Evrópuríkja. Ef þjóðin synjar slíkum viðræðum geta stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og almenningur einhent sér í það, með fullri samstöðu allra aðila, að þróa íslenskt samfélag og efnahagsumhverfi áfram út frá þeirri stöðu sem þá blasir við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×