Innlent

Geir ósammála Ingibjörgu um ESB og fortíðina

Geir H. Haarde forsætisráðherrra er ósammála Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra um að það jafngildi því að fara aftur til fortíðar að vilja ekki ganga í ESB. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, á Alþingi í dag.

Kristinn benti á grein Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðinu í dag. Þar segir ráðherra að varnir íslensks efnahagslífs felist til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að Evrópusambandinu, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans. Hinn kostinn sagði Ingibjörg vera að pakka í vörn og hverfa til þess tíma sem var fyrir árið 1994.

Kristinn H. Gunnarsson spurði hvernig ríkisstjórninni dytti í hug að það væri málefnalegt innlegg við núverandi aðstæður að halda því fram að þeir sem ekki styddu aðild að ESB væru talsmenn þess að hverfa aftur til fortíðar. Geir H. Haarde forsætisráðherra svaraði því neitandi og sagði: „Þar urðum við loksins sammála." Það jafngilti því ekki að vilja fara aftur til fortíðar að vilja ekki ganga í ESB.

Kristinn sagði ESB-aðild vissulega hlut sem þyrfti að ræða en henni fylgdu bæði kostir og gallar. Þá benti Kristinn á að eitt vissu menn, að aðild að Evrópusambandinu nú hefði engu breytt fyrir Íslendinga. Evrópski seðlabankinn tryggði ekki bankana og ríkisstjórnir Evrópusambandslandanna reyndu nú hver og ein að verja sitt bankakerfi. Aðild að ESB hefði heldur ekki tryggt okkur evruna því til þess að taka hana upp þyrfti ákveðin skilyrði. Sagði Kristin það ekki málefnalegt að setja hlutina fram á þann hátt sem utanríkisráðherra hefði gert.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×