Innlent

Námsmenn erlendis enn í vandræðum með millifærslur

Þrátt fyrir fyrirheit forsætisráðherra um að gjaldeyrisviðskipti séu að komast í eðlilegt horf geta námsmenn í útlöndum enn ekki fengið millifærslur frá íslenskum bönkum og kaupmenn ekki leyst út vörur frá birgjum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að hér heima eru útibú Landsbankans þau einu af stóru viðskiptabönkunum sem afgreitt hafa gjaldeyri í dag, þó með þeim höftum sem Seðlabankinn lagði á fyrir helgi. Gjaldeyrir er þó uppurinn í sumum útibúanna og viðskiptavinir Glitnis og Kauþings hafa verið í tómu tjóni.

Fjölmörg fyrirtæki hafa lent í vanda vegna þess að þau hafa ekki getað leyst út vörur til að halda uppi starfsemi og lítið hefur ræst úr þeim vanda sem námsmenn í útlöndum standa frammi fyrir. Margir hverjir peningalausir.

Í Danmörku er lokað fyrir millifærslur Íslandi og sagðist Lars Christensen forstöðumaður greiningardeildar Danske Bank í samtali við fréttastofu að hann væri ekki bjartsýnn á að ástandið færi að batna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×