Innlent

Valgerður útilokar ekki framboð

Formannsslagur virðist vera í uppsiglingu hjá Framsóknarflokknum eftir miðstjórnarfund flokksins í gær. Valgerður Sverrisdóttir útilokar ekki framboð.

Staða Guðna Ágústsson, formanns Framsóknarflokksins, þykir hafa versnað verulega eftir miðstjórnarfund flokksins í gær. Miðstjórnin samþykkti þá að leggja fram tillögu á komandi flokksþingi í Janúar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er algjör viðsnúningur frá fyrri stefnu flokksins sem meðal annars Guðni Ágústsson hefur stutt.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur verið í hópi Evrópusambandssinna innan flokksins. Hún von á því að tillagana verði samþykkt á flokksþinginu. „En ég geri mér grein fyrir því að það eru mismunandi skoðanir. Það verða ekki allir fullkomlega sáttir ef þetta verður niðurstaðan í janúar að Framsóknarflokkurinn vilji að það sé sótt um aðild en ég tel ekki að þetta þurfi lengur að vera neitt mikið hitamál."

Formannsslagur virðist vera í uppsiglingu í Framsóknarflokknum og hefur Siv Friðleifsdóttir meðal annars verið nefnd sem líklegur frambjóðandi. Í samtali við fréttastofu í dag sagði hún slíkt ekki vera á dagskrá. Valgerður útilokar hins vegar ekki framboð. „Þetta gerist allt mjög hratt núna. Ég ætla ekki alveg að taka af skarið með það í hvora áttina akkúrat í dag. En ég er nú ekkert óskaplega mikið að velta því fyrir mér. satt að segja. Aðspurð hvort hún útiloki framboð segir Valgerður: „Nei það þarf einhverja daga í viðbót til þess að átta sig á því."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×