Innlent

Felur fyrrverandi dómurum að rannsaka árás í Kjúklingastræti

MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur falið tveimur fyrrverandi hæstaréttardómurum að fara yfir árás sem gerð var á íslenska friðargæsluliða í Kabúl ári 2004 með þeim afleiðingum að tveir almennir borgarar létust. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri grænna.

Árni Þór benti að þátttaka Íslendinga í stríðinu í Afganistan hefði verið hvað áþreifanlegust þegar íslenskir friðargæsluliðar fóru til teppakaupa á Kjúklingastræti í Kabúl. Þeir hafi særst í sjálfsmorðsárás og fólk misst lífið í henni. Spurði hann ráðherra hvort íslenska ríkið hefði greitt skaðabætur til fjölskyldna fórnarlambanna tveggja, 11 ára afganskrar stúlku og 23 ára bandarískrar konu. Ef svo væri ekki hvort ráðherra hefði í hyggju að sjá til þess að fjölskyldunum verði greiddar skaðabætur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði árásina skelfilegan atburð og mikið áfall fyrir okkur öll. Hún hefði höggvið eftir því að Árni Þór hefði sagt að rekja mætti árásina til starfsemi Íslendinga í Afganistan. Svo væri ekki því þeir sem stóðu fyrir árásinni hefðu borið ábyrgð á henni. Hún hefði í eðli sínu verið hryðjuverk og beinst að friðargæsluliðum og almennum borgurum.

Ráðherra sagði að ekki hefðu verið greiddar bætur til fjölskyldna fórnarlambanna þar sem ekki hefðu verið taldar forsendur fyrir því. Hér hefði ekki verið um átök að ræða heldur árás á friðargæsluliðana.

Þá sagði ráðherra margt varðandi málið virðast óljóst í augum margra og að málið væri enn í hugum fólks og væri enn óútkljáð. Hún vildi að farið yrði yfir málið í heild sinni og því hefði hún falið Guðrúnu Erlendsdóttur og Haraldi Henryssyni, fyrrverandi hæstaréttardómurum, að vinna úttekt um málið. Meðal þess sem þau myndu gera væri að taka viðtöl við aðila málsins en markmiðið væri að gefa sem heildstæðast yfirlit yfir árásina. Að því loknu gætu íslensk yfirvöld metið atvikin og séð hvort ástæða væri til aðgerða.

Fram kemur í tilkynningu fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu vegna málsins að óskað sé eftir því skýrsluhöfundar kanni hvernig með málið var farið og hvort ráðuneytið hafi rækt sínar skyldur og ábyrgð. Einnig er skýrsluhöfundum ætlað að gera tillögur um frekari viðbrögð eða úrbætur ef ástæða þykir til. Óskað hefur verið eftir að skýrsla liggi fyrir fyrir sumarið 2008.

Fréttaskýringarþátturinn Kompás var á dögunum í Afganistan og ræddi meðal annars við fjölskyldu afgönsku stúlkunnar sem lést í árásinni. Hægt er að horfa á viðtalið hér.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×