Innlent

FT segir Ísland fá 670 milljarða lán frá IMF og fleirum

MYND/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld munu óska eftir 6 milljarða dollara aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ýmsum seðlabönkum í heiminum, jafnvirði um 670 milljarða króna. Þetta er fullyrti á vef breska blaðsins Finacial Times.

Blaðið vitnar í fólk sem þekki vel til viðræðna stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það segi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni leggja til einn milljarð dollara, rúmlega 110 milljarða króna, en að Seðlabankar hinna norrænu ríkjanna og Japans muni lána restina. Óvíst sé hvort Rússar komið að björgunaraðgerðunum.

Financial Times bendir á að íslensk stjórnvöld hafi ekki sent formlegt erindi til sjóðsins en að búist sé við því að bréf verði sent til sjóðsins í dag eða á morgun. Þá segir blaðið að björgunarpakkinn muni breyta miklu fyrir Ísland sem hafi átt í erfiðleikum með að fá aðstoð frá öðrum þjóðum sem bíði eftir viðbrögðum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Viðræður um skilyrði hafi gengið vel

Þá segir Financial Times að viðræður íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skilyrði fyrir láninu hafi gengið vel og einblínt sé á þrjú svið, bankakerfið, peningamálastefnuna og gjaldeyrismál þjóðarinnar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi leitað eftir staðfestingu á því að bankakerfið verði byggt upp aftur og lög um fjármálafyrirtæki endurskoðuð ásamt ítarlegri rannsókn á því hvað hafi komið af stað kreppunni hér á landi. Þá fari Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki fram á það að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur né grundvallarbreytingar á velferðarkerfinu. Enn fremur hafi ekki verið settir neinir skilmálar um sölu á Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni sem hafi verið teknir yfir af ríkinu.

Hins vegar fari sjóðurinn fram á skýra stefnu um niðurskurð í útgjöldum ríkisins til þess að að bregðast við auknum skuldum. Þá segir breska blaðið að íslenska krónan verði sett á flot aftur eins fljótt og mögulegt sé og er búist við að hún styrkist um leið og viðskiptahallinn í landinu minnki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×