Innlent

Atvinnuleysi 1,3 prósent í september

Atvinnuleysið í septembermánuði mælidst 1,3 prósent og jókst úr 1,2 prósentum í ágúst. Fram kemur á vef Vinnumálastofnunar að um 2.200 manns hafi að meðaltali verið atvinnulausir í september og er það aðeins um fjögurra prósenta aukning frá í ágúst. Atvinnuleysi er hins vegar mun meira en á sama tíma á árinu 2007, þegar það var 0,8 prósent.

Atvinnuleysi jókst í öllum landshlutum nema á Vesturlandi. Það hefur aukist jafnt og þétt meðal karla á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði og á Norðurlandi eystra og víðar en hefur dregist saman á Vesturlandi og á Austurlandi.

Hins vegar minnkaði atvinnuleysi meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu lítið eitt í september og á Norðurlandi eystra hefur það dregist saman síðustu mánuði. Á Suðurnesjum hefur atvinnuleysi meðal kvenna verið einna hæst á landinu undanfarin misseri og jókst enn milli ágúst og september en hafði farið minnkandi mánuðina á undan.

Þá segir Vinnumálastofnun að búast megi við að atvinnuleysi aukist verulega í október og verði á bilinu 1,5 til 1,9 prósent. Mjög erfitt sé hins vegar að sjá fyrir þróun efnahags- og atvinnulífs og þar með þróun atvinnuleysis um þessar mundir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×