Erlent

Hlerunarbúnaður í tehitunartæki drottningar?

MYND/Reuters

Forláta tehitunartæki sem Rússar gáfu Bretadrottningu hefur verið fjarlægt úr Balmoral-höll vegna gruns um að í því sé hlerunarbúnaður.

Það er heldur seint í rassinn gripið hjá bresku leyniþjónustunni að færa hinn rússneska samovar úr Balmoral-höll núna, því það eru liðin tuttugu ár síðan rússneskt fimleikalið gaf drottningunni hann.

Ef rétt reynist að þarna leynist hlerunarbúnaður hafa Rússar getað hlerað samtöl drottningarinnar við forsætisráðherra sína, erlenda þjóðhöfðingja og eigin fjölskyldu.

Starfsmaður konungsfjölskyldunnar sagði að þetta tehitunartæki hefði alltaf verið dálítið skrýtið fyrirbæri. Víralagnir í því hefðu verið eins og úr skriðdreka úr síðari heimsstyrjöldinni.

Af einhverjum ástæðum var tækið hins vegar í miklu uppáhaldi hjá Elísabetu drottningarmóður sem kom því fyrir í horni móttökusalar og sýndi það oft gestum.

Fyrrnefndur starfsmaður sagði að nýlega hefðu útsendarar leyniþjónustunnar komið til Balmoral með nýjustu græjur til þess að finna hlerunartæki. Tehitunartækið hafi þá strax verið fjarlægt og tekið til rannsóknar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×