Innlent

Starfsmenn norrænna fjármálafyrirtækja styðja íslendinga

NFU norræn samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja lýsa yfir eindregnum stuðningi við félaga sína á Íslandi í baráttu þeirra við að leysa úr þeim vandræðum sem alheimsfjármálakrísan hefur skolað á land á Íslandi.

Þetta kemur fram í stuðningsyfirlýsingu sem samtökin senda íslendingum. Þar segir ennfremur:

„Íslenska hagkerfið er í stöðu þar sem íslenskir bankar, viðskiptavinir þeirra og starfsfólk standa frammi fyrir erfiðleikum af áður óþekktri stærð. Við þeim blasir að reisa úr rústum hagkerfi sem var nánast velt um koll með aðgerðum annarra. Við erum öll í þessu saman, ekki bara sem starfsmenn í fjármálafyrirtækjum, heldur einnig sem þátttakendur í alþjóðlegu efnahagslífi.

Þessvegna hvetjum við norrænar ríkisstjórnir og norræna seðlabanka til að styðja Ísland í baráttunni við fjármálakreppuna."

NFU er samtök stéttarfélaga starfsmanna í fjármála og tryggingageiranum á öllum Norðurlöndunum. NFU er fulltrúi fyrir 160 þúsund starfsmenn á norrænum fjármálamarkaði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×