Innlent

Sigríður fagnar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins

„Þetta álit eitt og sér breytir ekki rekstrarumhverfinu, en vissulega styður þetta við að teknar verði réttar ákvarðanir og RÚV hverfi af auglýsingamarkaði," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Skjás eins.

Hún fagnar niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins sem lagði í dag til að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði þegar aðstæður leyfi. Háttsemi þess hefði leitt til alvarlegrar takmörkunar á samkeppni.

Öllum starfsmönnum Skjás eins var sagt upp á dögunum. Sigríður sagði við það tilefni að í því árferði sem nú er reyndi mjög á sjálfstæða sjónvarpsstöð sem byggi tekjur sínar einvörðungu á auglýsingum að þurfa einnig að keppa við ríkisrekna sjónvarpstöð um þær reytur sem eftir séu.

Í kjölfarið var settur á laggirnar undirskriftarlisti þar sem skorað er á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að um að leiðrétta ójafnt samkeppnisumhverfi einkarekinna sjónvarpsstöðva. 53 þúsund manns hafa skrifað undir þann lista.

Sigríður segist bjartsýnni nú en hún var á að takist að halda Skjá einum á floti og að hægt verði að endurráða starfsmenn. Það velti á tveimur þáttum, að náist að endursemja við birgja og að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði. Hún á von á því að niðurstaða viðræðna við birgja liggi fyrir á næstu dögum og vikum, og vonar að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði innan tíðar. „Ég er að eðlisfari jákvæð og bjartsýn og trúi að réttlætið nái fram að ganga," segir Sigríður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×