Innlent

Bloomberg fjallar um vaxandi reiði hér á landi

Frá mótmælum á Austurvelli um síðustu helgi.
Frá mótmælum á Austurvelli um síðustu helgi.

Bloomberg-fréttastofan fjallar um vaxandi reiði almennings hér á landi vegna mistaka og aðgerðaleysis stjórnvalda.

Þar kemur fram að mótmæli hafi verið skipulögð vikulega og hefur fréttastofan eftir Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, að mótmælendur geti orðið allt að 20 þúsund, eða sex prósent af þjóðinni, ef ekki fáist svör hjá stjórvöldum um framtíðarsýnina fljótlega. „Óróleikinn er fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnin upplýsir ekki almenning um hvað sé á stefnuskránni," segir Andrés.

„Það voru gerð hrikaleg mistök en þeir sem gerðu þau eru enn á sínum stað," segir Hildigunnur Rúnarsdóttir tónlistarmaður enn fremur í samtali við Bloomberg.

Ótrúlegt að Úkraína fái lán en ekki Ísland

Einnig er rætt við Lars Christiansen, aðalhagfræðing Danske Bank, sem segir að efnahagslífið hér á landi þurfi sárlega á innspýtingu að halda og hver dagur skipti máli. „Það vekur nægar áhyggjur að þeim takist ekki að tryggja þær sex milljónir dollara sem þeir telja sig þurfa en það vekur enn meiri áhyggjur að þeim takist ekki að fá milljarðana tvo," segir Christansen og vísar til samkomulags stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Þá segir hann að ótrúlegt sé að eitt spilltasta land í heimi, Úkraína, fái 16 milljara dollara lán frá sjóðnum en íslenskum stjórnvöldum takist ekki að tryggja sér neitt frá sjóðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×