Innlent

,,Það er allt í góðu lagi á Bakka"

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra.

Umhverfismat fyrir Bakkaálver er í eðlilegu ferli, að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Þórunni á Alþingi fyrr í dag hvort það komi til greina að hennar hálfu að draga til baka ákvörðun um heilstætt umhverfismat vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka.

,,Það er allt í góðu lagi á Bakka," sagði Þórunn sem hyggst ekki draga ákvörðun sína frá í sumar til baka.

Jón sagði mikilvægt að Alþingi sendi frá sér skýr skilaboð. ,,Við verðum að senda skýr skilaboð um það á hverju við ætlum að byggja þetta samfélag í framtíðinni. Það þýðir ekkert að segja við þessa þjóð að það sé allt í lagi að tefja framkvæmdir. Það er orðið tímabært að við hættum að flækjast fyrir hérna á þinginu með því að setja einhverjar reglur sem eru til þess fallnar að tefja þetta ferli."

Þórunn hvatti Jón til að kynna sér stöðu mála betur. Hún spurði hvort hann væri að leggja til að Íslendingar segðu skilið við EES-samninginn og þær skuldbindingar sem landið hefur undirgengist samkvæmt honum í umhverfismálum.

,,Hvað er þingmaðurinn að segja? Það er kannski betra að hugsa aðeins betur áður en menn koma hér upp með frá fráleiddar fullyrðingar og fráleiddar ályktanir sem þeir draga af þeim," sagði Þórunn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×