Íslenski boltinn

Gunnar: Ég nota batterísvél - ekki hamar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Sigurðsson fagnar með félögum sínum í dag.
Gunnar Sigurðsson fagnar með félögum sínum í dag. Mynd/E. Stefán
Gunnar Sigurðsson, markvörður Íslandsmeistara FH, var heldur betur kátur í bragði eftir leikinn gegn Fylki í dag.

FH varð Íslandsmeistari þar sem að Keflavík tapaði sínum leik í dag. Tíu ára bið Gunnars er því á enda.

„Ég varð síðast meistari 1998 og búin að vera því tíu ára bið. Þetta hefur reyndar verið rosalega fljótt að líða. En þetta er afar ánægjulegt."

„Ég átti reyndar ekki von á því að við myndum taka þetta eftir að við töpuðum stórt fyrir Fram. En þá sagði Binni framkvæmdarstjóri Fram við mig að ef við myndum klára okkar leiki myndi það duga okkur því þeir ætluðu að klára Keflvíkinga sjálfir."

„Ég sagði við hann að hann hefði nú aldrei staðið við neitt sem hann hefur sagt en ég verð að éta það ofan í mig nú. Ég skulda honum eina góða koníaksflösku."

„En þetta er algert djók. Ég var harðákveðinn í að hætta en fannst svo gaman að mæta á æfingar. Ég var alveg sáttur við að vera bara á bekknum. En ég fæ svo að spila þegar að Daði meiddist og hélt svo sæti mínu. Ég náði að spila fjóra Evrópuleiki, þeirra á meðal á móti Aston Villa og svo verðum við Íslandsmeistarar. Þetta er bara ótrúlegt og gerist ekki betra."

Ólafur Kristjánsson, þjálfari Blika, sendi Gunnari litla „pillu" fyrir leikinn gegn FH í vikunni og Gunnar ákvað að svara fyrir sig nú.

„Óli ætti að vita að ég nota batterísvél - ekki hamar. Hún er vel hlaðin núna," sagði hann og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×